30.4.2009 | 22:47
Pabbi 60.
Jamm og já. Staðfest, próflestur er kominn í gang, rífandi gleði alla daga. Það hefur nú gengið ansi hægt að læra, aðallega útaf pókerspilun og almennri netnotkun, en svo var gamli sextugur í gær og það var haldin heljarinnar veisla. Maður er nottla búinn að vera með hugann við það. Semja ræðuna (sem sló í gegn að sjálfsögðu), fiffa myndasýningu og fleira. Það fór nú svo að veislustjórinn forfallaðist í miðri veislunni þannig að undirritaður tók bara við veislustjórninni og menn höfðu það á orði að önnur eins veislustýring hefði vart sést hér á landi...en ég hugsa að ég tileinki þessa færslu gamla manninum og geri grein fyrir því sem við gáfum honum.
Við systir mín gáfum honum teiknaða skopmynd sem sést hér fyrir neðan (smellið á hana til að stækka). En þar sést hann hoppa yfir á/læk með bambusprikinu sínu góða, sem brotnaði í eitt skiptið og við það féll kallinn í viðkomandi vatn. Svo er þarna smásjáin sem hann hefur auðvitað notast við í vinnunni sinni í gegnum árin, Stóra-Merkur skiltið er vísun í bernskuárin í sveitinni og svo er hann að segja þarna; Afburða styrkur í fótum. En hann fór einhvern tímann í styrktarpróf þar sem þetta var semsagt niðurstaðan...að hann hafi verið með afburðastyrk í fótum og við höfum ekki fengið að gleyma því á okkar heimili. En já, svo gáfum við honum eitthvað voðalega flott heilsutjekk hjá hjartavernd (systa sá um það). Ofaná þetta alltsaman fékk gamli Lay-z-boy stól og að auki fékk hún móðir mín einn færasta hagyrðing landsins til að yrkja vísur um kallinn við lagið Þung er nú báran með Roðlaust og beinlaust (sjá tónlistarspilara). Best að slengja fram vísunum hér, svo hendi ég skýringum við vísurnar, því ekki vita allir hvað verið er að tala um. En ég hvet alla sem þekkja einhvern sem á stórafmæli bráðum að fá einhvern til að yrkja svona um viðkomandi...eða bara yrkja sjálf. Það er fáránlega gaman að fá svona ort um sjálfan sig, ímynda ég mér allavega.
Leifur Þorsteinsson í hnotskurn
Sextugur er hann þó sjáist þar vart
Seiglu og krafti hans ekkert fær breytt.
Lífið það víst hefur leikið hann hart
Lagt hann að velli þó fær ekki neitt. <- Hann fékk krabba árið '79
Viðlag:
Hetjunni syngjum nú hátíðar brag
Hetju sem ofvirkur puðar hvern dag <- Hann er fáránlega ofvirkur
Fæddur í mýrinni og fóstraður þar <- Mýrin = sogamýrin (sogavegur)
Fór svo í rétto og menntun þar hlaut.
Þó nokkur sumur í sveitinni var
Sinnti þar störfum og löppina braut <-Sem varð til þess að sú löpp hætti að stækka
Viðlag:
Á háskólaárunum ástina fann
Amor með boganum flest getur hitt
Osló var borg sem að heillaði hann
Hann fór til Noregs með kon´efnið sitt
Viðlag:
Að fræðast um mosa þá freistaði mest <-Hann ætlaði að verða
En frumurnar unnu og þess konar dót mosafræðingur!!!
Djarfur til Íslands sig dreif fyrir rest
Doktor með konu og nýfædda snót <- Systa fæddist í Noregi
Viðlag:
Í fornsögum unnu menn afrekin stór <-Hann hatar ekki að vitna í Njálu
Alltaf er gaman að vitna í slíkt. og Eglu
Þegar hann Egill á fyllerí fór
Fjögrára gamall, já það ver sko ýkt
Viðlag:
Gæðum á Íslandi gera vill skil
Greinar hans þær eru heimildar safn
Varla sú þúfa í Þórsmörk er til
Sem þekkir hann ekki og veit hennar nafn <- Skýrir sig sjálft?
Hann er fararstjóri hjá FÍ
Viðlag:
Forðum hann lipur á stöngina stökk
Stóreflis fljót þannig krossað hann gat.
Uppaf þó stöngina að endingu hrökk
Eftir þá karlinn í vatninu sat <- Sjá mynd ;-)
Viðlag:
Í lífi og starfinu öryggið á
Oddinn hann setur og þrí tryggja skal
Vammið sitt als ekki vita hann má
Veit ekkert ljótara' en reddinga tal <- Hann er alltaf með
"belti og axlabönd"
Viðlag:
Tilbúinn virðist í allskonar at
Ein er þó hindrun á sælunnar leið
Borða vill frekar en búa til mat <- Skelfilegasti kokkur ever hann pabbi
Bjargar sér þó ef það stefnir í neyð <- Við erum að tala um mix af skyri og kotasælu!
Viðlag:
Faðir og vinur hann alla tíð er
Eymund og Steinunni af sér hann gat
Hag okkar lands fyrir brjósti hann ber
Bjartsýnin sigrar, já það er hans mat
Viðlag:
Öll hér á svæðinu óskum við þér
Yndis og gæfu á framtíðar braut
Hvert sem þig ljósið í lífinu ber
Lukkan þér alla tíð falli í skaut
Svo mörg voru þau orð, en þetta söng hún móðir mín ásamt Þorvaldi Halldórssyni (sem er kannski þekktastur fyrir að syngja "Á sjó") og allir tóku svo undir viðlagið. Mjög svo nett. Annars var þetta bara geggjað kvöld, menn héldu þarna ræður, sungu gömul og góð íslensk dægurlög og drukku rautt og hvítt í hófi...enda vinna hjá flestum daginn eftir.
Semsagt...lukku með afmælið pabbi minn og megi árin verða a.m.k. 60 í viðbót.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er fallegt hjá þér Eymundur. Sé strax að pabbi þinn er toppmaður þó hann haldi afmælið sitt á meistaradeildarkvöldi. Menn sem geta kvótað í Eglu og Njálu eru bara með etta.
Sindri (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 00:57
blogga... :@
Helgi (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.